<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, maí 24, 2006

Vinnuafmæli

Í dag er ég 32 ára...og eins og svo oft áður síðustu árin var ég að vinna eins og brjálæðingur á afmælisdaginn.

Þessi dagur var því að mestu leyti eins og hver annar vinnudagur, nema að í morgun fékk ég afmælissöng frá Líf, sem var vissulega ánægjulegt. Svo spilaði stimpilklukkan afmælissönginn þegar ég stimplaði mig inn, sem var líka sérstakt. En annars gekk allt sinn vanagang. Stressið fyrir fréttirnar klukkan fjögur var þó óvenju mikið, allt fór aflaga sem gat farið aflaga og ég kom inn í stúdíóið á síðustu stundu og var þá ekki búinn að raða fréttatímanum upp. En eins og venjulega er þetta alltaf skemmtilegt :)

***

Mikil vinna er annars framundan vegna kosninga. Er meðal annars á vakt á kosninganóttina uns yfir lýkur. Sem er líka mjög spennandi.

***

KR virðist bara vera að gera gott mót. Sigur á Skagamönnum á útivelli og á Fylki er meira en ég þorði að vona. Teitur er kannski maðurinn sem hefur okkur til vegs og virðingar á nýjan leik!

2 comments

sunnudagur, maí 21, 2006

Afturhvarf til fortíðar

Ég ólst upp í blokkaríbúð á Hjarðarhaga 54 í vesturbæ Reykjavíkur. Bernskuárin þar rifjuðust nett upp fyrir mér í dag.

Mamma hafði boðið okkur fjölskyldunni í pizzu til sín og ætlað að nýta sér það að það væri tilboð á pizzustað á Hjarðarhaganum. "Er kominn pizzustaður þangað?" spurði ég hálf hissa. Alls staðar eru þeir greinilega að troða sér.

En við komum þangað, ég panta pizzuna og ákveð svo að rölta frá íbúð hennar á Hofsvallagötunni yfir á Hjarðarhagann til að ná í hana. Og þó að ég hafi keyrt Hjarðarhagann einstaka sinnum og margoft keyrt Vesturbæinn frá því að ég flutti úr honum varð upplifunin að ganga göturnar einhvern veginn allt öðruvísi.

Ég gekk fyrst göngustíg sem liggur frá Hofsvallagötunni á Kvisthagann. Gekk þar framhjá túni sem ég spilaði oft fótbolta á með öðrum strákum í hverfinu og var alltaf kallað Stóratún. Það virkaði ekki neitt svakalega stórt þegar ég horfði á það, en það gladdi mig reyndar nett að sjá að nú voru komin mörk á túnið, en áður fyrr notuðum við eigin yfirhafnir eða steina fyrir markstangir.

Einn besti vinur minn á þessum tíma bjó á Kvisthaga 10 og var hægt að ganga framhjá því húsi beint inn á Hjarðarhagann. Nú var hins vegar búið að loka fyrir allt slíkt og búa til snyrtilegt plan við húsið. Ég þurfti því að ganga allan Kvisthagann og rifjaði þar upp hverja ég hefði þekkt í húsunum þar.

Síðan labbaði ég inn á pizzastaðinn, en hann er nánast beint á móti blokkinni sem ég bjó í. Þar hafði áður verið ísbúð, og hún er reyndar þarna ennþá, en deilir rýminu með pizzastaðnum. Áður fyrr tók hins vegar ísbúðin allt rýmið. Sniðugt, hugsaði ég. Þegar ég bjó þarna var Hagabúðin aðalbúðin í götunni en nú er komin 10-11 verslun þarna í staðinn. Það vissi ég reyndar fyrir. Við hliðina á Hagabúðinni var hins vegar lítil sjoppa en ekkert sést af henni lengur heldur er þar komin þjónustumiðstöð. Húsið í heild sinni er því alls ekkert líkt því sem það var þegar ég bjó þarna. Mér fannst það einkennileg tilfinning.

Þegar ég kom af pizzastaðnum og horfði yfir að blokkinni sem ég bjó í fóru að rifjast upp fyrir mér stundirnar þarna. Garðurinn og það sem maður gerði í honum, íbúðin sem ég bjó í, félagarnir, allt saman. Þetta var í raun fyrsta alvöru "flashbackið" sem ég fékk frá bernskuárunum.

Þetta var í senn skrítin og notaleg tilfinning. Ég átti engan veginn von á því að upplifunin yrði svona miklu sterkari við að ganga götuna en að fara hana á bíl. En það er mjög hollt að heimsækja bernskuslóðirnar af og til svo maður gleymi ekki hvaðan maður er kominn.

Og til að fyrirbyggja allan misskilning, þá er ég ekki að fara að flytja úr Hafnarfirði þrátt fyrir þetta!

0 comments
Gargandi snilld

Mikið svakalega er ég ánægður með úrslitin. Finnarnir áttu þetta innilega skilið og ánægjulegt að hrakförum þeirra í keppninni sé lokið. Vonandi fara þá þær raddir að þagna um að þetta sé bara orðin austantjaldskeppni...nokkuð sem mér hefur alltaf fundist vera vitlaus umræða.

Röðin í undanúrslitunum er hins vegar orðin ljós og það er hægt að skoða hana hér. Held að Silvía Nótt geti í raun vel við unað. Hún varð í þrettánda sæti, fjórtán stigum frá tíunda sætinu sem hefði tryggt okkur áfram. Þetta er betri árangur en Selma náði í fyrra, en hún hafnaði í sextánda sæti. Það eitt og sér verður að teljast stórmerkilegt. Norðurlandaþjóðirnar gáfu okkur allar sjö stig, nema Svíar sem gáfu okkur sex. Ástæðan fyrir því var einföld - Finnar og Svíar voru með sterkari framlög en við. Svo gáfu Litháar okkur líka sjö stig. En Finnarnir rústuðu allavega undankeppninni líka.

Spurning hvort þetta verði til þess að hörðum rokklögum fjölgi í Eurovision. Allavega kom Ruslana af stað trendi með trommur eftir að hún vann fyrir tveimur árum.

2 comments

This page is powered by Blogger. Isn't yours?